Hoppa yfir valmynd
4. desember 2023 Innviðaráðuneytið

Norrænir samgönguráðherrar funda í Brussel

Norrænir ráðherrar samgöngumála í Brussel - mynd

Fundur norrænna samgönguráðherra fór fram í Brussel 3. desember. Á fundinum var rætt um ýmis samgöngumál. Meðal gesta voru þau Sigurður Ingi Jóhannsson, inniviðaráðherra, Andreas Carlson, innviðaráðherra Svíþjóðar, Jon-Ivar Nygård, samgönguráðherra Noregs, Lulu Ranne, samgöngu- og fjarskiptaráðherra Finnlands og Thomas Danielsen, samgönguráðherra Danmerkur. Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár.

Á ráðherrafundinum var rætt um bætt umferðaröryggi, meðal annars í samræmi við markmið ESB um að útrýma banaslysum í umferðinni fyrir árið 2050, auk miðlun upplýsinga milli ríkja ESB um umferðarlagabrot með það að markmiði að fækka þeim sem komast hjá refsingu fyrir umferðarlagabrot í gestaríki.

Einnig var rætt um tillögu að endurbættu regluverki um siglingaöryggi og hvernig stuðla má að umhverfisvænum og nútímalegum siglingum, ásamt hámarksstærð og þyngd flutningabifreiða á vegum með það fyrir augum að hvetja til notkunar á nýrri og hagkvæmari tækni í flutningabifreiðum sem mun leiða til minni losunar kolefnis.

Aðrar umræður snerust meðal annars um aksturs- og hvíldartíma hópferðabílstjóra með það að markmiði að auka sveigjanleika og skilvirkni þjónustunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum