Hoppa yfir valmynd
5. desember 2023 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Niðurstöður PISA 2022

Niðurstöður í PISA 2022 voru birtar í dag. Könnunin mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Niðurstöðurnar sýna verri árangur nemenda í þátttökulöndum miðað við fyrri kannanir, m.a. á öllum Norðurlöndum og er lækkunin meiri á Íslandi.

 

Almennt lækka þátttökulönd í stærðfræðilæsi, lesskilningi og læsi á náttúruvísindi frá 2018 til 2022. Ísland mælist undir meðaltali Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í öllum þremur flokkum. Lægra hlutfall býr yfir grunnhæfni og afburðahæfni borið saman við meðaltal Norðurlandanna og OECD.

Stærðfræðilæsi

 

Lesskilningur

 

Læsi á náttúruvísindi

 

Nánari greining

Nemendum á Íslandi líður almennt vel í skólanum og upplifa að þeir tilheyri þar. Ólíkt nemendum flestra landa koma þeir betur út úr þessari mælingu 2022 en 2018. Þeir hafa jákvæða upplifun af kennurum sínum og upplifa sjaldan einelti. Í þessum atriðum standa þeir betur en jafnaldrar sínir í OECD-ríkjum og á Norðurlöndunum. Nemendur af 1. kynslóð innflytjenda á Íslandi standa hins vegar verr en aðrir nemendur á Íslandi í öllum mælingum á líðan.

Heimsfaraldur hafði margvísleg áhrif á skólastarf, kennara og nemendur. Tvö af hverjum þremur þátttökulöndum í PISA 2022 lokuðu skólum í þrjá mánuði eða lengur. Þróun frammistöðu landa í heild frá 2018 til 2022 bendir til áhrifa faraldursins, einkum í stærðfræðilæsi og lesskilningi.   

Nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu koma verr út í könnuninni þvert á þátttökulönd. Merki eru um aukningu í ójöfnuði í námsárangri í PISA á Íslandi yfir tíma, einkum í lesskilningi, og er svipaður hér og á hinum Norðurlöndunum.

Lægra hlutfall drengja nær grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi (61%) en stúlkna (68%) en kynjamunur er mestur í grunnhæfni í lesskilningi (53% hjá drengjum á móti 68% hjá stúlkum).

Verkefnið framundan

Ljóst er af niðurstöðum PISA 2022 að stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir og samtök þurfa að leggjast á eitt við að skilja ástæður þeirrar neikvæðu þróunar í lesskilningi og læsi sem kemur fram í könnuninni og bregðast við.

Greining á niðurstöðunum mun nýtast ríki og sveitarfélögum við innleiðingu nýrrar menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030, nýs matferils til námsmats, nýrrar heildarlöggjafar um skólaþjónustu og nýrrar stofnunar á sviði menntamála, auk farsældarlaga. Aukinn stuðningur við skólaþjónustu, námsgagnagerð, kennara og fagfólk á öllum skólastigum gegna lykilhlutverki í þeirri vinnu.

Um PISA-könnunina

PISA (Programme for International Student Assessment) er umfangsmikil alþjóðleg könnun á vegum OECD á hæfni og getu 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Sá aldur er valinn þar sem hann markar lok skólaskyldu í flestum löndum.

Alls tók 81 þjóð þátt í könnuninni, þar af 37 aðildarríki OECD. Menntamálastofnun sá um framkvæmd rannsóknarinnar á Íslandi fyrir hönd mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti og í hverri könnun leysa nemendur verkefni í lesskilningi, læsi á stærðfræði og læsi á náttúruvísindi. Ísland hefur tekið þátt í PISA frá fyrstu könnun árið 2000 þegar 43 ríki tóku þátt. Fjögur ár eru liðin frá síðustu könnun vegna áhrifa heimsfaraldurs.

Í PISA 2022 voru nemendur einnig spurðir um upplifun af námi og kennslu, líðan, félags- og tilfinningafærni og nám, kennslu og stuðning á COVID-tímum. Könnunin var lögð fyrir í mars og apríl 2022 og liggja niðurstöður nú fyrir. Tæplega 3.400 nemendur tóku þátt og var þátttökuhlutfall 80%.

Skýrsla og samantekt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum